Að vera með flott og vel snyrt hár er jafn mikilvægt og jafn sjálfsagt og að vera í hreinum og snyrtilegum fötum. Að upplifa slæman hárdag ætti að vera jafn mikill óþarfi eins og að ákveða viljandi að taka sér persónulegan ljótufatadag.
Að útrýma slæmum hárdögum er talsvert auðveldara en manni gæti grunað. Nokkur atriði ber að hafa í huga og nokkrar venjur skyldi temja sér.
Mikilvægast er að finna sér klippara sem skilur þig og getur hannað á þig eitthvað lúkk sem hentar þínum karakter og lífsstíl.
Þegar þú hefur fundið þér þennan mikilvæga aðila í lífi þínu og finnur að þig langi til að taka samband ykkar á næsta level þá skaltu í samvinnu við hann koma þér upp kerfi og bóka alltaf næstu heimsókn áður en þú kveður hverju sinni.
Hvort sem það hentar þér að fara í klippingu á 3, 4, 5, eða 6 vikna fresti, og jafnvel sjaldnar, þá með þessari aðferð áttu alltaf bókaðan tíma í snyrtingu akkúrat um það leyti sem að slæmu hárdagarnir eru handan við hornið.
Eftir að hafa tileinkað sér þetta einfalda kerfi þá ber að huga að hárvörunotkun.
Hvort sem þú ert með fíngert eða gróft, þunnt eða þykkt hár, þá eru til hárvörur sem eru sérsniðnar að þér og þínu hári. Ef þú hefur ekki fundið þær þá ætti klipparinn þinn að geta leiðbeint þér og valið fyrir þig nákvæmlega þær vörur sem henta bæði hári þínu og hársverði. Og síðast en ekki síst til að ná því besta fram í klippingunni þinni. Með því að eiga réttu vörurnar og nota þær rétt, geturu litið út alla daga eins og þú leist út þegar þú labbaðir út af hárgreiðslustofunni þinni.
Ef ég ætti að telja upp nokkrar af mínum uppáhaldshárvörum um þessar mundir þá væri þar helst að nefna fyrir herrana:
Free.Hold frá ástralska gæðamerkinu Kevin.Murphy, þægilegt krem sem gefur náttúrulega áferð og gott hald, hentar flestum hártýpum.
Einnig finnst mér Matte Clay leirinn frá Dapper Dan hrikalega skemmtilegur, gefur matte áferð og gott hald, mjúkur og auðvelt að móta hárið með honum.
Svo síðast en ekki síst Pomade frá American Crew, gefur þetta klassíska glansandi lúkk.
Fyrir dömurnar þá er sko úr miklu að velja. Í uppáhaldi hjá mér þessa dagana eins og flesta aðra daga ársins er að sjálfsögðu Moroccanoil argan olían, ómissandi inná öll betri baðherbergi.
Ég legg gríðarlega mikla áherslu á heilbrigði hársins svo að það er rökrétt að nefna næst OI All in One Milk frá Davines, þetta undraefni nærir, styrkir og mýkir hárið ásamt því að gefa því aukinn glans, minnka úfning fleira.
Að lokum verð ég svo að nefna Bedroom.Hair frá Kevin.Murphy, þetta magnaða sprey er eins og blanda af þurrsjampói og hárspreyi, gefur hárinu aukna þykkt og meira líf, ásamt því að gefa því smá hald og mótun.